Vorrúllur með grænmeti

Vorrúllur með grænmeti

1 pakki vorrúllupappír (40 stk)(finnst í frysti í asískum matvöruverslunum, meðal annars í Fiska)

lítið höfuð hvítkál eða hálft stórt

3 stórar gulrætur

6 vorlaukar

1 lítil paprika

2 lauf hvítlaukur

2 msk sojasósa, saltminni

1 msk dökk sojasósa

1 msk hrísgrjónaedik

1 msk sesamolía

svartur pipar

olía til steikningar

Byrjið á að skera hvítkálið, rífið gulræturnar, skerið paprikuna og vorlaukinn smátt.

Hitið olíu á stórri pönnu og steikið vorlaukinn í 1 mínútu.

Bætið við gulrót og hvítkáli og steikið í nokkrar mínútur. Bætið örlítilli olíu á pönnuna til viðbótar ásamt hvítlauk og papriku. Stekið áfram í 1-2 mínútur og bætið síðan við sojasósunni, ediki og svörtum pipar.

Hrærið vel í grænmetinu og slökkvið undir pönnunni. Bætið við sesamolíu út á pönnuna og látið blönduna kólna áður en vorrúllurnar eru útbúnar.

Til að gera vorrúllur er tekið eitt blað í einu af deiginu, 3 msk af fyllingu er sett á deigið fyrir hverja rúllu.

Leggið fyllinguna í eitt hornið, rúllið yfir fyllinguna. Brjótið báðar hliðarnar inn yfir fyllinguna og bleytið endann á vorrúlludeiginu með vatni. Klárið að rúlla deiginu upp þétt. Leggið vorrúlluna með sauminn niður á disk og byrjið á næstu rúllu.

Vorrúllurnar eru penslaðar með örlítilli olíu og bakaðar í 8 mínútur í air fryer eða 10-15 mínútur í ofni við 200°c.

Rúllurnar má einnig frysta en þá þarf að bæta nokkrum mínútum við eldunartímann ef þær eru bakaðar beint úr frystinum.