Brúnaðar kartöflur

Brúnaðar kartöflur
(1)

Það eru margar aðferðir við að brúna kartöflur og skiptar skoðanir á hvort eigi að setja saman við rjóma eða vatn eða sleppa því alveg en hér er sú aðferð sem hefur reynst okkur best:

1 kg forðsoðnar kartöflur (eða soðnar flysjaðar kartöflur)

1 dl sykur

1 msk smjör eða smjörlíki

Fyrst þarf að setja kartöflurnar í heitt vatn svo að kartöflurnar nái að verða heitar í gegn (einfaldast að hella yfir þær úr hraðsuðukatlinum á meðan annað hráfni er tekið til).

Setjið 1 dl sykur í botninn á pönnu og hitið þar til sykurinn er bráðinn. Bætið þá smjörinu út í sykurinn og hrærið vel saman. Slökkvið nú undir pönnunni. Hellið vatninu af kartöflunum og látið þær standa í sigtinu í 1 mínútu til að vatnið nái að drjúpa vel af og hellið síðan heitum kartöflunum út í karamelluna á pönnunni. Veltið kartöflunum um í karamellunni til að hjúpa þær.

Setjið brúnaðar kartöflur í skál og leggið pönnuna í bleyti til að auðvelda frágang.