Glútenlausar kleinur

Glútenlausar kleinur

Það er ekkert launungarmál að það er mun meira vesen að vinna með þetta deig en hefðbundið kleinudeig. Deigið er langt frá því að vera teygjanlegt og slitnar auðveldlega þegar reynt er að móta klassíska kleinuformið. Lykillinn er þolinmæði og nóg af auka glútenfríiu mjöli til að gera deigið meðfærilegra. Afraksturinn verða stökkar og bragðgóðar kleinur sem slá í gegn hjá öllum.

150 g hafrahveiti

50 g smjör eða smjörlíki

250-350 g glútenlaust hveiti með lyftiefnum

110 g sykur

2 egg

200 ml hrein jógúrt eða súrmjólk

2 tsk kardimommuduft eða 1 tsk kardimommudropar

1 tsk xanathan gum

Palmín feiti til steikingar

Byrjið á að vinna saman kalt smjörið og hafrahveitið. Þegar smjörið og hveitið er orðið vel blandað og án klumpa má bæta við sykri, lyftidufti, matarsóda og kardimommum.

Setjið 250 g af glútenlausa hveitinu saman við en geymið síðustu 100 grömmin og bætið við deigið eftir þörfum þegar deigið er flatt út.

Hnoðið jógúrt og eggjum saman við og hnoðið. Bætið við örlitlu af hveitinu ef deigið er mjög klístrað.

Látið deigið bíða í klukkustund í kæli áður en unnið er með það.

Takið helming deigsins og fletjið það út með kökukefli í um 0,5 cm þykkt. Skerið út tígla og skerið litla rauf í miðju hvers tíguls. Dragið annan enda tígulsins í gegnum raufina til að snúa upp á kleinuna. Þetta getur reynst frekar snúið en æfingin skapar meistarann.

Þegar búið er að móta kleinur úr öllu deiginu má hita palmín feitina í potti eða djúpsteikingarpotti. Þegar feitin hefur náð 170-180°c má byrja að steikja kleinurnar í skömmtum. Veiðið steiktar kleinurnar upp úr pottinum og látið feitina renna af þeim á eldhúspappír.